Partý

Það var partý í gærkvöldi eins og ég sagði frá í gær þetta var mikð fjör og mikið gaman ég hef aldrei verið með fólki frá jafnmörgum heimsálfum og löndum í einu partýi. Þarna voru, bretar, bandaríkjamaður, frakkar, svisslendingur, þjóðverji, hollendingur, belgi, ástrali, indverji, japanir, tælendingur, pakistani dani, svíi, súdani, rúandamaður, úkarínumaður, norðmenn og svo íslendingar. Skemmtileg blanda, þetta fór samt mjög vel fram og engir árekstrar. Smile

Það eru mjög sérstakir karakterar sem að eru að vinna í þessu og mjög margir eru búnir að fara kannski 15-16 svona mission og eru kallaðir mission djunkies. Frábært fólk með gríðarlega mikla ævintýraþrá. Það var mikið rætt um hvar ætti að halda jólin fyrir þá sem að verða hérna yfir jólin það var ákveðið eftir því sem að ég best veit að þá verður veislan heima hjá okkur í Valhöll Smile að vísu verð ég bara einn þar þá þar sem að Gunni verður heima um jólin. Það verður gríðarlega skrítið að eyða jólunum og áramótunum hérna á Sri Lanka og líka að eyða jólunum með ca. 30 manns sem að maður þekkir nú ekki mikið og koma héðan og þaðan úr heiminum með alls kyns siði og hefðir frá sínu landi, þetta verður upplifun það er víst.. Grin En partýið var gott og ég drakk nokkuð mikið af Arrack, asskoti gott bara.

Ég fer svo að setja inn einhverjar myndir hérna fljótlega.. 

Kv.J


Stríð.

Ég hef nú hingað til ekki verið að tjá mig um ástandið hérna en ég ætla samt að skrifa nokkrar línur um ástandið hérna.

Ég er búinn að vera að fara um bæi og sveitir þessa fallega lands ég hef talað við marga sem að hafa upplifað hörmungar stríðs og þá er ég að tala um það stríð sem að geisaði hér áður en að skrifað var undir vopnahléssamnniginn 2002. Sá samningur sem að nú er í gildi að sögn stríðsaðila.

Á köflum þá verður maður reiður og maður horfir upp á hvað margt sem að er gert hérna er gjörsamlega tilgangslaust og maður getur jafnvel borið ástandið hérna saman við það hvernig ástandið var í Þýskalandi fyrir seinni heimstyrjöldina.

Fólkið hérna sem margt hefur alist upp við þetta ástand alla sína ævi og ég verð að segja það að flest það fólk sem að ég hitti hérna og ég á samskipti við vegna þessa ástands er hreint út sagt ótrúlegt og það er margt sem þetta fólk gæti kennt umheiminum um æðruleysi. Mæður, feður og börn sem að standa uppi með ekkert í höndunum til þess að framfleyta sér og sínum og þá ósjálfrátt verður manni hugsað til þess velferðarþjóðfélags sem að maður býr við á Íslandi og þau forrétindi að búa þar og alast upp við þær aðstæður sem að Ísland og íslenskt þjóðfélag hefur upp á að bjóða. Því þetta fólk horfir framan í mann skælbrosir og er þakklátt fyrir það að maður er staddur hjá þeim og er að reyna að rétta hjálparhönd hversu máttlaus sem að manni þykir hún vera. Ég ætla ekki að tjá mig frekar á þessum nótunum í bili og frekar að einbeita mér að því skemmtilega sem að gerist hérna.

Í kvöld er kveðjupartý fyrir nokkur sem að eru að starfa hér fyrir hinar ýmsu hjálparstofnanir og maður hittir ýmsa furðulega karaktera sem að eru að starfa hérna en ég segi ykkur frá því fljótlega. Smile

Kv.J

 


Arrack, heimavarnarlið, hermenn og löggur.

Í gærkvöldi þar sem að ég sat á skrifstofunni og var að spjalla við fólkið heima á msn, þá kom Vikki sem er FA hjá okkur, mikill snillingur og góður strákur. Þegar hann varð var við að ég var á skrifstofunni vildi hann endilega gefa mér að smakka á drykk sem að er búinn til hérna á Sri Lanka þessi drykkur sem er áfengur Smile heitir, Arrack, svipar svona til Black Death, Brennivín okkar íslendinga, ég var nú alveg til í það og fór með honum í hús sem stendur hérna á bak við skrifstofuna okkar og er afdrep fyrir bílstjórana okkar, þar voru nokkrir af þeim fyrir og voru að drekka Arrack, sem að kom nú bara skemmtilega á óvart því það er alls ekki vont, ekki kannski bragðbesta áfengi sem að ég hef smakkað en samt bara allt í lagi og tölvert betra en Brennivín til dæmis.

Allavega það var mikið spjallað og þá komst ég að ýmsu sem varðar hermenn og lögreglumenn hérna, ég verð að byrja á að útskýra aðeins hvernig þetta virkar hérna það er landher, sjóher og flugher svo ertu með löggur og heimavarnarlið þetta er svona grunn útskýrnig á uppbyggingunni en það er líka fullt af alls konar minni deildum innan þessara osfrv. Allavega til þess að komast í heimavarnarliðið, sem að ég er nokkuð viss um að einhver hafi verið búinn að drekka mikið Arrack þegar valdir voru búningar á þau, því þeir eru hrikalega bleikir og ljótir langt frá því að vera hermannalegir (minna á búningana sem átti að taka í notkun í Löggulíf, þeir sem muna eftir þeirri kvikmynd) en eins og ég sagði þjálfun þeirra tekur heila, og takiði nú eftir, 14 daga, Grin hvernig finnst ykkur það? 14 dagar og þá fá þau byssu (sem að vísu í flestum tilvikum er 2 metra löng haglabyssa og er miklu stærri en þau) og með byssuna standa þau við vegina út um allt og yfirleitt sjást þau vel bæði vegna búninga og hvað byssan stendur hátt upp í loftið.

Löggan sem er að öllu leyti alveg það sama og herinn það er fyrir utan búningana fær miklu betri þjálfun, því það tekur sko alveg heila 30 daga að verða lögga..LoL Löggan hérna er samt alveg eins búin og hermenn með vélbyssur gangandi um göturnar, handjárn og annar búnaður sem að maður tengir við lögregluna hef ég ekki orðið var við hérna.

Að vera hermaður tekur samt alveg massa tíma að verða hérna því þeir eru sko með lang lengstu þjálfunina, trommusóló 90 dagar, já hvernig lýst ykkur á þetta?? Sagan segir líka að það eina sem að sé þjálfað sé að skjóta, sem er nú líklega af hinu góða svo það sé skotið á rétta aðila og þess háttar, en allt þetta lið er svo spígsporandi hérna um allt þungvopnað og þó að ég sé enginn sérfræðingur í því hvernig á bera vopn að þá sá ég það frá fyrsta degi að það hefði nú alveg mátt eyða, þó ekki væri nema fyrir hádegi einn daginn í þjálfuninni, hvernig maður á að halda á vopni svona almennt.

Nóg í bili, kveðja J


Akstur

Úfffff, ég var hræddur.

Ég hef setið í bíl með mörgum misjöfnum bílstjóranum en mikið rosalega brá mér áðan, við fórum og keyrðum fyrirfram ákveðna flóttleið sem að við erum með ef allt fer í bál og brand. Allt í lagi með það en það var ákveðið að við myndum æfa okkur í keyra, við fórum sem sagt ég, Vikki bílstjórinn okkar og Linda sem er norskur friðargæsluliði. Þeir sem ekki vita það þá Sri Lanka fyrrum bresk nýlenda sem þýðir það þeir keyra á vinstri akreininni og stýrið er hægra meginn... Woundering

Vikki keyrði aðra leiðina og svo áttum við að keyra til baka, það var ákveðið að ég myndi keyra fyrri helminginn og svo Linda þann seinni, ég hef aldrei keyrt bíl á vinstri akrein og það var mjög sérstakt og það gekk nú eiginlega miklu betur en bjóst við, aftur á móti er umferðin hérna ekki neinu lík eins og ég nú sagt áður frá en aksturinn hjá mér gekk stórslysalaust fór í chiken við nokkra herbíla og ákvað alltaf að tapa þar sem að þeir víkja ekki og þeir voru á stærri bílum en ég og þeir eru líka með byssur.Pinch

Linda tók svo við þegar við vorum hálfnuð og þið vitið hvernig þetta er þegar maður byrjar á einhverju nýju þá geta fyrstu mínúturnar sagt til um áframhaldið einfaldlega út af sjálfsöryggi og það var einmitt það sem að gerðist. Við vorum rétt lögð af stað og vorum að taka fram úr svona þriggja hjóla Tug Tug fyrirbæri og Linda var ekki alveg með breiddina á bílnum á hreinu, þagar hún var svo alveg að koma að draslinu stakk sér allt í mótorhjól inn á veginn frá einhverjum hliðarvegi hún þurfti þess vegna að kippa bílnum til vinstri og allt í einu sá ég bara hornið á Tug dótinu nánast beint fyrir framann mig, hausinn á farþeganum og ökumanninum og skelfingarsvipurinn á andlitunum á þeim og þeir urðu nánast hvítir í framann, sem er mjög sérkennilegt að sjá á svona dökkum mönnum nema þú hafir séð Michael Jackson einhverntímann, hvítur svertingi. Ég horfði svo á þá tvo á meðann bílinn fór fram úr þeim og ég hugsa í alvöru að bilið á milli bílsins og Tug dótsins hefði verið mældur í millimetrum. Hjartað tók nokkur aukaslög því að ef að við hefðum lent á þeim þá tel ég mjög líklegt að það hefði orðið banaslys því það er enginn vörn í þessu rusli. Lindu náttúrulega dauðbrá eins og okkur hinum í bílnum og þetta gerði það að verkum að hún varð frekar óörugg það sem eftir var ferðar, við komumst nú samt heim og núna er bara setið og beðið eftir fréttum af ríkisstjórnarfundi hérna. Frown

Það er svolítið magnað með hugsunarháttinn hérna, dýr eru í hávegum höfð og það er allt gert til þess að drepa þau ekki, mannslífið aftur á móti er frekar lágt metið og það er ekki tiltökumál að manni virðist að drepa mann. Þetta kemur íslendingnum í mér spánskt fyrir sjónir og er þetta mjög undarlegt sérstaklega þar sem að á götunum er fullt fullt af hundum í mjög svo misjafnlegu ástand. Oftar en ekki væri maður að gera þessum greyjum greiða með því að skjóta þá, en það er sko harðbannað að gera þessum hundum mein, frekar láta þá reika hér um götur og vegi grindhoraða og hálf dauða. Hundavinir á Íslandi væru ekki sáttir svo mikið er víst en Þetta voru bara svona bara smá pælingar hjá mér.

Kveðja J

 


Stöðugleiki

Við höldum fund á hverjum morgni til þess að meta stöðuna frá degi til dags, þetta er gert á öllum stöðvunum og einnig í höfuðstöðvuum í Colombo og er það bara eðlilegt og gott og blessað með það.

Frá því að ég kom hingað hefur þetta samt alltaf verið þannig að það er alltaf eitthvað nýtt, þá aðalega frá stjórnarhernum og það hefur yfirleitt alltaf eitthvað að gera með tímamörk til að mynda, þið skuluð ekki fara á þennan stað í þetta langann tíma því að við ákveðum á morgunn klukkann þetta hvort að við ætlum að sprengja þarna allt í klessu. Það verður þess vegna að segjast eins og er að maður er alltaf í viðbragðstöðu og tilbúinn að koma sér í burtu ef að allt fer í steik. Þeir sem að til þekkja segja að núna þegar rigningartíminn fer í hönd að það sér akkúrat sá tími sem að Tígrarnir láti til skara skríða ætli þeir sér það á annað borð. Það kemur þá væntanlega í ljós fljótlega hvaða áætlanir þessir snillingar hafa.

Ég er allavega ekki mikið að stressa mig á því að það sér verið að setja tímamörk á hitt og þetta og óvissan í rauninni nokkuð mikil um það hvað gerist á næsta klukkutíma því að það þarf ekki meira en svo til þess að allt breytist og ég tapa ekki miklum svefn út af þessum pælingum. Sleeping Ég þekki nú samt nokkra heima sem að myndu ekki vera sáttir við svona óvissu... Grin Og þar fór rafmagnið í 3x í morgun, hehe þetta er fjör..

Kveðja. J

 


Æfingar

Æfingaaðstaðan hérna líkist kannski ekki Laugum, en við erum með bekkpressu og möguleika til þess að gera fótaæfingar bæði að framann og aftann í sömu græjunni og er það einstaklega hentugt, einnig er í tækjasalnum róðravél, nokkur lóð og boxpúði. Eins og ég segi þá er þetta ekki mikið og kannski ekki alveg að samsvara  þeim þyngdum sem að ég er að lyfta þegar ég æfi í Laugum en þetta er það sem að maður hefur og maður verður að gera sér það að góðu.

Ég fór á æfingu í gær og ákvað nú að prófa að berja aðeins í boxpúðann, það kom nú samt fljótt í ljós að það er líklega eitthvað sem að ég mun ekki geta gert mikið af. Púðinn er eins og lög gera ráð fyrir festur í loftið,  þegar ég byrjaði að slá í hann með stungum og alls konar fléttum sem að Bubbi hefði verið stoltur af, BOBA og allt það, þá áttaði ég mig á því að loftið sem að púðinn er festur í jaaaa það var ekki alveg að meika þessar gríðarlegu boxtaktík mína. Loftið og nánast allt húsið lék á reiðiskjálfiWoundering þannig að ég ákvað að leggja boxið á hilluna svona í bili allavega, kannski tekst mér að fá húsvörðinn hérna til þess að styrkja þetta eitthvað en það þarf þá líklega eitthvað að styrkja húsið þannig að ég veit ekki alveg hvernig það verður.

Húsið sem að við félagarnir búum í er kallað Valhalla enda erum við víkingar, nema hvað að það er rétt hjá skrifstofunni ca, 200 metrum frá. Ég ákvað í morgunn eða hádeginu þegar ég vaknaði, það er frí í dag, að núna ætlaði ég að prófa að fara út að skokka. Ég klæddi mig stoltur í hlaupaskóna og hélt af stað hljóp sem leið lá í áttina að skrifstofunni og var stefnan sett á, já ætli við  verðum ekki að kalla það íþróttavöll en það er sem sagt smá holóttur grasvöllur með netlausum fótboltamörkum og þar spila heimamenn Krikket. Nema þar sem að ég skokkaði í áttina að skrifstofunni og nálgaðist vélbyssuhreiðrið, sem að löggurnar sem eru að vakta skrifstofuna, eru í þá þustu þeir út og horfðu á mig koma, þeir voru með þvílíkum undrunarsvip á andlitinu, nota bene það er eðlilegt hérna að komast ekki leiðar sinnar á bíl af því að það er belja á veginum, nú þeir töluðu mikið og bentu á mig en höfðu þó rænu á því að bjóða mér góðan daginn. Ég skokkaði svo áfram í áttina að vellinum og olli hér um bil árekstri þegar maður á mótorhjóli flaug hér um bil á hausinn við að snúa sér við og horfa á mig.

Þegar hér var komið við sögu var ég farinn að átta mig á því að þetta var eitthvað sem að heimamönnum fannst skrítið. Þegar ég kom svo að vellinum og hljóp inn á hann og byrjaði að hlaupa í hringi þar, þá fyrst stoppaði Krikketleikurinn sem að var í gangi á vellinum og ég var farinn að halda að ég þyrfti að fara rifja upp fyrstu hjálpar kunnáttu mína. En ég var ákveðinn í því að klára mína æfingu og hélt áfram ótrauður. Þar sem að ég nálgaðist það að klára minn fyrsta hring þá var fólk farið að safnast saman fyrir utan girðinguna og horfa á mig, Krikket gaurarnir byrjuðu reyndar aftur að spila eftir smá stund en gjóðuðu samt alltaf á mig, en þar sem að ég nálgaðist nokkuð stóran hóp og ég stökk fimlega yfir kúamykju sem var á leið minni þá var greinilega einn sem að var forvitnari en aðrir. Þegar ég hljóp fram hjá sagði hann mjög kurteislega, good morning sir how are you doing? ég sem var gjörsamlega að kafna úr mengun og lykt af brennadi rusli, svaraði i´m fine thank you. Þeir félagar hlógu mikið og þessi stóri klikkaði útlendingur sem að hljóp hring eftir hring um völlinn létti greinilega lundina hjá mörgum heimamönnum því það hafa örugglega safnast saman svona 40-50 manns í kringum völlinn til þess að sjá þetta stórmerkilega fyrirbæri og var mikið hlegið og mikið bent. Grin

Segiði svo að maður geri ekki gagn hérna, en mikið ofboðslega sakna ég hreina loftsins á Íslandi..... Pouty

Kv. J


Laugardagurinn 2. Desember

Tveir dagar liðnir og maður er svona að byrja að átta sig á stöðu mála hérna í héraðinu ég á nú von á því að maður muni vera lengi að því að skilja til fullnustu öll þau málefni sem að virðast skipta máli hérna á Sri Lanka.

Hvað um það ég var að aka um héraðið með FA, Field Assistent, sem útleggst á íslensku sem ökumaður, túlkur, reddari og sá sem gefur manni ráð þegar maður er að tala við heimamenn. Allavega við vorum að aka um sveitina á hinum einstaklega þægilegu vegum hérna og hann var að fræða mig um sögu Sri Lanka nú þar sem að við hossuðumst saman og mér var orðið frekar heitt, enda 30 stiga hiti, við stoppuðum svo við ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla þetta einhverskonar veggasjoppu. Þar horfði hann á mig í smástund þar sem ég stóð kófsveittur, með shaking baby cyndrom, og sagði glottandi "you know Jans this time of year in Sri Lanka is winter, this wery cool weather" svo hló hann bara. Þannig að það er greinilegt að ég þarf að búa mig undir mun meiri hita þegar "sumarið" kemur.. LoL

Kv.J


Vavuniya

Já ef að mér fannst hættulegt að keyra í Colombo þá er það ekki minna hættulegt í sveitinni... Woundering  Vegirnir eru þröngir og holóttir og hraðinn, tja frekar mikill miðað við aðstæður, en það er svo ekki eitthvað sem að maður hefur ekki séð áður hvort sem það er á Íslandi eða á Sri Lanka LoL

 

IMG_1781         IMG_1785

Allavega kominn á áfangastað og þetta lítur svo sem ágætlega út, fullt af beljum og hundum út á götu, fólk  að brenna rusl við vegabrúnina og beljurnar að éta það sem eftir verður, einstaklega heimilislegt allt saman, menningarsjokk er kannski ekki orðið en maður sér allavega ýmislegt sem að hægt væri að bæta með ekki miklum tilkostnaði og fyrirhöfn en svona er staðan í dag og maður getur aðeins breytt svo litlu í einu.

Nýja heimili mitt er ágætt, við búum þar saman tveir íslenskir víkingar erum með allt til alls nema internetið, en það er þó eitthvað sem að mér er sagt að við séum að fá í húsið í næstu viku. Rafmagnið er þó ekki það áreiðanlegasta og í gærkvöldi fór það tvisvar sinnum, það er þó allt í lagi því að við erum með varaflsstöð..  Smile Hún er samt helvíti hávær þegar hún er sett í gang og við erum ekki vissir um hversu lengi við nennum að hafa hana í gangi þegar rafmagnið fer.

Vegna þessa rafmagnstruflana þá eru sum rafmagnstækin í húsinu ekki að virka sem skildi (eitthvað sem rafvirkjavinir mínir vita) þó sérstaklega á það við loftkælinguna sem að er í herberginu mínu því að hún er núna aðeins með eina stillingu og það er full power og ekkert annað. Nú þeir sem að þekkja mig vita það að ég er mjög heitfengur og ekki möguleiki að sofa án loftkælingar, nema hvað að í nótt vaknaði ég að drepast úr kulda þannig að það var ekki annað að gera enn að slökkva á græjunni og hvað haldiði, vaknaði hálftíma seinna kófsveittur Smile skemmtilegt vandamál sem að maður leysir á einhvern góðann hátt. Sturtan í morgunn var svo svöl og maður vaknaði vel við hana þó að krafturinn á vatninu væri kannski ekki til þess að hrópa húrra fyrir..LoL

Hvað um það ég er mættur til vinnu fyrsta daginn minn hérna og núna sjáum við hvað gerist.

Kveðjur frá Vavuniya. J  

 


Fjörið hefst

Það var ekki mikill hamingja að vakna um þrjúleytið aðafarnótt mánudagsins gjörsamlega að drepast í maganum, ekki ólíklegt að það hafi eitthvað með sterkann mat að gera, allavega dröslaðist nú samt á fætur um morgunin eftir frekar lítinn svefn. Námskeiðinu framhaldið en upp úr hádegi þá var bara ekki um neitt annað að ræða en að fara upp á hótel og leggja sig. Dagurinn í gær var þess vegna frekar tíðindalítill fór í það að liggja í bælinu og hlaupa á dolluna Sick 

Vaknaði svo í morgunn bara helvíti hress, náði að klára allt sem að var eftir að klára á námskeiðinu og núna er bara komið að því. Klukkann 06:00 í fyrramálið held ég til Vavuniya þaðan sem að ég mun starfa næstu mánuðina, ég get ekki sagt annað en að spennan hefur verið að aukast hjá mér og það er með tilhlökkun og spennu sem að ég tekst á við þau verkefni sem að bíða mín.

Það skal tekið fram fyrir þá sem eru eitthvað skelkaðir fyrir mína hönd og vegna fréttar sem að ég las á, mbl.is núna áðann, þá er ekkert sem að bendir til þess að það sé eitthvað meira að fara í gang hérna en fyrir er. Set ég stórt spurningarmerki við þessi greinarskrif og þau áhrif sem að þau geta haft gagnvart vinum og vandamönnum íslenskra friðargæsluliða hér á Sri Lanka.

En ekki fleiri orð um það, ég er hress og spenntur fyrir morgundeginum.

Kv. J


Colombo

Ég vaknaði snemma í gærmorgunn, fékk mér morgunmat, það kom síðan bíll frá SLMM sótti okkur og var okkur skutlað í höfuðstöðvarnar þar sem að við erum á námskeiði fyrstu 3 dagana.

Eftir að kennslu dagsins lauk fórum við nokkur saman út að borða, fórum á veitingastað sem að er hérna á hótelinu og er eingöngu með sjávarrétti þetta var mjög skemmtilegur staður og mjög gaman að borða þar, aðalrétturinn er valinn þannig að maður fer með þjóninum sínum að stóru borði þar sem að eru allar þær fisktegundir sem að eru á boðstólnum í það og það skiptið (það er misjafnt og fer eftir því hvað veiddist gott yfir daginn) þar sem sagt velurðu hvað  þig langar í og hversu mikið þú villt fá allgjör snilld. Restinu af kvöldinu var svo eytt við spjall,spilaður snóker og nokkrir bjórar drukknir það er nefnilega frí í dag. Wink 

Þeir sem að þekkja mig vita það að ég kvarta aldrei yfir akstri annara.. LoL Allavega ekki mikið, akstur hérna er samt alveg ótrúlegur mér finnst það alveg magnað að fylgjast með því hvernig umferðin gengur fyrir sig hérna það er svolítið skemmtilegt að sjá þegar þeir svína á hvorn annan vinstri hægri og svo er bara brosað framann í þann sem var svínað á sem að yfirleitt brosir bara til baka, einstaklega brosmildir. Grin En það er bara spennandi að vera í umferðinni hérna og þeir sem að kvarta undann umferð í Reykjavík, það er ekki umferð í Reykjavík miðað við þetta hérna. Smile

Ég er nýkominn upp á hótel og til þess að koamast hingað ferðaðist ég með mjög skemmtilegu faratæki sem að kallast Tug Tug sem að samanstendur (fyrir þá sem að ekki vita) af einhverskonar mótorhjóli með vagni þar sem að maður situr í (ég set fljótlega inn myndir og video af svona græju og þá sjáði þið hvað ég meina) allavega þá settist ég upp í svona ökutæki og ferðin gekk vel en ég skal alveg viðurkenna það að stundum lokaði ég bara augunum og vonaði það besta.. Shocking

Jæja ég ætla fara að slaka á, kíkja í nudd og fara í sólbað, það veitir víst ekki af áður maður heldur af stað út í óvissuna... Smile

Kveðja frá Lanka. J


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jennafréttir

Höfundur

Jens Gunnarsson
Jens Gunnarsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Kaffihlé
  • Sæktu
  • Svíþjóð
  • Ananas
  • Suðurströndin

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband